top of page

UM OKKUR

​​​Eden Alternative eru alþjóðleg samtök sem hafa að markmiði að breyta viðhorfi og menningu í tengslum við umönnun aldraðra. Að hverfa frá stofnanavæddri menningu til eflandi og hvetjandi menningar sem er hlýlegri og mannúðlegri. Eden Alternative hugmyndafræðin er áhrifarík til að efla sjálfræði og lífsgæði aldraðra sem og þeirra sem koma að umönnun aldraðra.

Eden Alternative var stofnað af Dr. William (Bill) Thomas með konu sína Jude sér við hlið og hefur verið starfandi í um tuttugu ár. Eden Alternative var stofnað í Bandaríkjunum og er starfrækt í 50 ríkjum í Bandaríkjunum og hefur dreift sér víða um heim meðal annars til Japan, Kína, Ástralíu, Nýja Sjálands, Kanada, Sviss, Austurríkis, Þýskalands, Englands, Írlands, Danmerkur, Svíþjóðar, Noregs, Færeyja og Íslands.
 

Nafnið Eden AlternativeNafnið Eden varð fyrir valinu sem tákn um gróskumikinn garð með margbreytilegu lífi. Eden garðurinn þar sem heimurinn var í fullkomnu jafnvægi fyrir syndafallið. Eden garðurinn hefur verið tákn fyrir paradís sem lýsir heiminum áður en hið illa kom til og hið fullkomna ástand sem við viljum stefna að. Paradís er staður þar sem tilveran er jákvæð, í jafnvægi og tímalaus. Orðið „Alternative“ fylgir á eftir Eden sem tákn um annað sem þarf í staðinn fyrir hina stofnanavæddu menningu sem hefur verið ríkjandi við umönnun aldraða.​


HugmyndafræðiHugmyndafræði Eden Alternative er að aldraðir á hjúkrunarheimilum, eða öðrum stofnunum eru einmana og þjást af vanmáttarkennd og leiða. Einmanaleiki, vanmátarkennd og leiði sem á rætur sínar í stofnanavæðingu heilbrigðisþjónustunnar, sem flest umönnunarheimili hafa unnið eftir, er ekki líkamleg þjáning en leggst á sálina. Við sem erum upptekin í hversdagslífinu eigum auðvelt með að horfa fram hjá þessari þjáningu eða taka ekki eftir henni en Eden Alternative kennir okkur að sjá og orða það sem er að gerast og bregðast við.​
 

Hugmyndafræðin byggir einnig á að maðurinn á að hafa tækifæri til að vaxa og þroskast út ævina hvort sem hann er barn, fullorðinn eða aldraður með langvinna sjúkdóma. Allir eiga rétt á lífsgæðum óháð aldri, búsetu, fötlun og færnisskerðingu. Því er nauðsynlegt að umbreyta menningu umönnunar og flytja áherslur frá stofnanavæddri menningu þar sem aðallega er horft á líkamlega kvilla, sjúkdóma, fötlun og færnisskerðingu og flytja þær að amstri daglegs lífs, viðurkenningu, færni, heilsu, áhugamálum og virkni. 

​Breytt viðhorf

Hvað hlutverk hafa aldraðir í samfélaginu? Hvaða þjónustu fá aldraðir í samfélaginu? Hvenig ætti öldrunarþjónusta að vera? Út frá þessum vangaveltum hefur Eden Alternative orðið að viðurkenndri hugmyndafræði um allan heim. Eden Alternative byggir á að upplifunin af því að eldast og verða aldraður sé að maðurinn eigi að finna fyrir því út ævina að vera viðurkenndur, verðmætur og virkur þátttakandi í samfélaginu. Það er unnið með ferli sem leiðir af sér aukið sjálfræði og lífsgæði aldraðra, aukna starfsánægju starfsmanna og betri samskipti og samvinnu milli þeirra sem koma að og þyggja umönnun. 


​Markmið

Markmið Eden Alternative er breyta viðhorfi og menningu og skapa heimili og vinnustaði fyrir heimilisfólk og starfsfólk þar sem fólki líður vel, finnst það eiga heima, finnur fyrir nærveru og viðurkenningu. Þar sem umhverfið er bæði hversdagslegt og margbreytilegt; þar sem óvæntir hlutir gerast sem og skipulagðir; þar sem virkni, val og efling eru hluti daglegs lífs samhliða því að umönnun, hjúkrun og meðferðum er sinnt. Efla og styrkja gæði lífs og sjálfræði aldraðra og umönnunaraðila þeirra og útrýma einmanaleika, vanmáttarkennd og leiða.
 

 

Saga Dr. Bill Thomas um upphafið að The Eden Alternative

Dr. Bill Thomas var á stofugangi á hjúkrunarheimili þar sem hann vann og kom inn á herbergi konu sem var rúmliggjandi, hún var með hvítt hár og ótrúleg blá augu. Bill hallaði sér að henni og kallaði í eyra hennar: „hvað get ég gert fyrir þig í dag?!“ Hún var með útbrot á hendinni sem höfðu verið að angra hana og Bill vissi nákvæmlega hvað hún þurfti við þeim, Hydrocortisone 1% krem borið á þar til að útbrotin höfðu jafnað sig og skrifaði lyfseðil fyrir hana. Bill átti erfitt með hætta að horfa í þessi ótrúlegu bláu augu og hallaði sér aftur að konunni og spurði: „Er það eitthvað fleira sem að ég get gert fyrir þig í dag?“ Gamla konan með fallegu bláu augun greip í handlegginn á Bill, dró hann að sér og sagði með mildri sorgmæddri röddu: „læknir, ég er svo einmana!” Þetta setti Bill úr jafnvægi, hann vissi ekki hvernig hann átti að bregðast við en brosti vinalega og klappaði henni á hendina og yfirgaf svo herbergi konunnar og hélt áfram stofuganginum. Bill gat ekki hætt að hugsa um þessi fallegu bláu augu og vissi ekki hvernig hann gat hjálpað þessum sjúklingi sínum.


Í Harvard hafði honum ekkert verið kennt um einmanaleika. Þegar hann kom heim dró hann fram námsbækur sínar og skannaði efnisyfirlit þeirra í leit að meðferð við einmanaleika en fann ekkert. Hann byrjaði að hugsa um hina sjúklingana á hjúkrunarheimilinu. Hann var með bestu læknisfræðilegu menntunina sem hægt var að hugsa sér, samt sem áður vissi hann að hann var að bregðast sjúklingum sínum sem þjáðust. Af hverju? Var einmanaleiki að plaga þá auk annars? Þessar vangaveltur urðu til þess að Bill, sem hafði annars mjög mikið að gera, mætti á hjúkrunarheimilið og settist niður. Hann lagði til hliðar hlutverk sitt sem annasamur læknir og bara sat og fylgdist með. Hann sat í forstofunni, matsalnum og sólstofunni. Það sem hann sá nú en hafði verið of upptekinn til að sjá áður var þjáning þeirra öldruðu. Ekki þjáning af líkamlegum toga, sem var orsökin fyrir innlögninni á hjúkrunarheimilið, heldur þjáning sem slekkur á lífsneistanum. Hann sá að sjúklingarnir sínir þjáðust og voru að deyja úr einmanaleika, vanmætti og leiða.


Þessar plágur höfðu verið þarna allan tímann, beint fyrir framan hann. Hann hafði bara verið of upptekinn til að taka eftir því. Bill hafði ekki lært um þessar plágur í Harvard, enginn hafði kennt honum hversu eyðileggjandi þær gátu verið en hér voru þær. Hvert sem hann leit í kringum sig á hjúkrunarheimilinu sá hann þessar plágur sem rændu lífsneistanum frá hinum öldruðu. Læknisfræðilega líkanið átti ekki svör við þessum vanda. Hann vissi hvernig hann átti að bregðast við útbrotum, sykursýki eða hjartabilun. Hann vissi hvernig hann átti að meðhöndla brotna mjöðm eða heilaáfall en hann vissi ekki hvernig hann gæti meðhöndlað einmanaleika.


Hann vissi þó að hann yrði að gera eitthvað. Þetta leiddi hann að sögunni um Eden, sögunni um sköpun heimsins sem öll börn í Ameríku þekktu til. Manninum var ekki ætlað að búa í köldu, sótthreinsuðu umhverfi. Honum var ætlað að lifa í garði, það er hans náttúrulega umhverfi. Við verðum að skapa umhverfi fyrir aldraða sem er líkara garði – Eden garðinum.

eden mynd 2.jpeg
eden mynd 5.jpeg
bottom of page